Alverk

Austurhlíð 10, 12 og 14

Staða verks í febrúar 2021

Frágangur innan íbúða í Austurhlíð 10-14 er í góðum gangi, málningarvinna langt komin og parket komið á gólf. Uppsetning og frágangur innréttinga og hurða er í fullum gangi. Málun og frágangur sameigna vinnst samhliða lokafrágangi íbúða. Verið er að steypa upp síðustu veggina við innkeyrslu í bílakjallara og er vinna við pípu- og raflagnir ásamt loftræstingu innan bílakjallara í góðum farvegi.

Þessa dagana eru að jafnaði 60 starfsmenn á verkstað sem vinna við frágang lagnakerfa, raflagnir, múrverk, málun, innréttingar, járnsmíði, flísalagnir, trésmíða- og klæðningavinnu ásamt fleiru. Verkið er á áætlun og stefnt er að verklokum í vor. Yfirborðsfrágangi lóðar lýkur svo sumarið 2021.

Staða verks í lok desember 2020

Nú er uppsteypu mannvirkja við Austurhlíð 10-14 lokið. Vinnu við bílakjallara utanhúss er einnig að mestu lokið, ásamt því sem innan- og utanhúss frágangur íbúða og bílakjallara er í fullum gangi og gróf frágangur lóðar kominn vel á veg. Þessa dagana eru að jafnaði um 50 starfsmenn á verkstað, sem vinna að frágangi lagnakerfa, við raflagnir, múrverk, flísalagnir, trésmíða- og klæðningavinnu, stálsmíði og málun, ásamt fleiru. Verið er að setja upp létta innveggi, innréttingar, leggja gólfefni og er uppsetning á innihurðum að hefjast. Þessi frágangsvinna er, þegar þetta er skrifað, lengst komin í A10, en A12 og A14 fylgja fast á eftir. Verkið er á áætlun og stefnt er að verklokum næsta vor, samanber verkskilmála. Yfirborðsfrágangi lóðar lýkur svo sumarið 2021.

Alverk óskar byggjendum, byggingarnefnd og öðrum fulltrúum Samtaka Aldraðra gleðilegra jóla og farsæls nýárs. Við þökkum af heilum hug ánægjulegt samstarf undanfarin ár.

Staða verks í lok október 2020

Nú er uppsteypu bygginga við Austurhlíð 10-14 lokið. Vinnu við bílakjallara er einnig að mestu lokið ásamt því sem innan- og utanhúss frágangur mannvirkja er í fullum gangi og gróf frágangur lóðar er hafinn. Þessa dagana eru að jafnaði um 45 starfsmenn á verkstað, sem vinna við jarðvinnu við hús, lagnakerfi, raflagnir, múrverk, trésmíða- og klæðningavinnu, stálsmíði og málun ásamt fleiru.

Hús A 10

Uppsteypu hússins er lokið og innanhússfrágangur kominn á fullt. Raflagnaídrætti og lagnavinnu er að mestu lokið. Húsið er full einangrað og utanhúss klæðningar komnar vel á veg. Lokið er við að reisa milliveggi innanhús, málun er að mestu lokið, flísalagnir langt komnir og verið er að undirbúa parketlögn. Áætlað er að uppsetning innréttinga hefjist í lok nóvember n.k.

Hús A 12

Uppsteypu hússins er lokið og innanhússfrágangur kominn á fullt. Húsið er núna full einangrað og vinna við utanhúss klæðningar komin vel á veg. Raflagnaídrætti og lagnavinnu er að mestu lokið. Lokið er við að reisa milliveggi innanhús, málningarvinna í góðum gangi, flísalagnir að hefjast og verið er að undirvinna gólf fyrir parketlagnir. Áætlað er að uppsetning innréttinga hefjist í kringum áramót 2020/21.

Hús A 12

Uppsteypu er lokið. Unnið er við raflagnaídrátt og lagnavinnu, uppsetningu gifsveggja og fleira. Samanber lýsingu fyrir hús A 10-12 hér að ofan.

Bílakjallari

Búið er að steypa bílageymslu upp að mestu leyti. Uppsteypu verður lokið í nóvember n.k. Í beinu framhaldi hefst annar frágangur hennar innan- og utanhúss.

Staða verks í byrjun September 2020

Nú er uppsteypu við byggingar í Austurhlíð 10-14 lokið. Vinnu við bílakjallara er að ljúka ásamt því að verið er að vinna inní húsunum. Þessa dagana eru að jafnaði um 35-40 starfsmenn á verkstað, sem vinna við jarðvinnu, lagnakerfi, mótauppslátt, steypu, járnbendingu, raflagnir, múrverk og málun ásamt fleiru.

Hús A 10

Uppsteypu hússins er lokið og innanhússfrágangur kominn á fullt. Raflagnaídrætti er lokið. Húsið er full einangrað og utanhúss klæðningar komnar vel á veg. Lokið er að reisa gifsveggi innanhús og málun langt komin.

Hús A 12

Uppsteypu hússins er lokið. Húsið er núna full einangrað og undirkerfi utanhússklæðningar komið vel á veg. Raflagnaídrætti er að mestu lokið. Búið er að spartla steypta veggi og reisa alla gifsveggi. Vinna við pípulagnir er komin á fullt.

Hús A 14

Uppsteypu er lokið. Unnið er við raflagnaídrátt og uppsetningu gifsveggja. Allir stofnar pípulagna eru tilbúnir til að fara upp hæðirnar um leið og gifsveggir verða uppsettir.

Bílakjallari

Búið er að steypa súlur að mestu leyti. Búið er að steypa um 1700 fm af botnplötu og vélslípa. Hífingar á holplötum og Deltabitum sem eru undirstaða burðarkerfis bílakjallarans hafa gengið vel og búið er að setja niður um 1300 fm af holplötum. Á næstu vikum verður steypt þrifalag ofaná hluta bílakjallarans ásamt því að ljúka við þær súlur og veggi sem eftir eru.

Innréttingar

Kaupendum í Austurhlíð 10, 12 og 14 gefst nú kostur á að velja um útlit á innréttingum.

Val án kostnaðarauka

  1. Náttúrulegt útlit. Spónlagðar eikarinnréttingar í eldhúsi, anddyri og fataskápum, eikar laminat á baði/þvottahúsi, innihurðir eik.
  2. Náttúrulegt og létt. Spónlagðar eikarinnréttingar í eldhúsi, anddyri og fataskápum, eikar laminat á baði/þvottahúsi, hvítir sprautulakkaðir efri skápar í eldhúsi, allar innihurðir hvítar.
  3. Val innanhúshönnuðar. Hvítar sprautulakkaðar innréttingar, matt, alla innihurðir hvítar.
  4. Náttúrulegt, létt og sterkt. Eikarinnréttingar laminat með hvíta sprautulakkaða efriskápa, allar innihurðir hvítar.

 

  • Val um borðplötur dökk/ljós.

  • Val um tvö gólfefni.

  • Val um hvítar flísar eða að borðplata fari áfram upp. Einnig má sleppa því og þá er málað hvítt með sömu málningu og er á stofu/almennu rými.

VAL 1. OPIÐ ELDHÚS.
VAL 1. LOKAÐ ELDHÚS MEÐ FRAMHLIÐUM Á TÆKJUM.
VAL 2. OPIÐ ELDHÚS.
VAL 2. LOKAÐ ELDHÚS MEÐ FRAMHLIÐUM Á TÆKJUM.
VAL 3. OPIÐ ELDHÚS MEÐ FRAMHLIÐUM Á TÆKJUM.
VAL 3. LOKAÐ ELDHÚS.
VAL 4. OPIÐ ELDHÚS MEÐ FRAMHLIÐUM Á TÆKJUM.
VAL 4. LOKAÐ ELDHÚS.

Val með kostnaðarauka

  • Deluxe 1 – Fullkomnari eldhústæki, span helluborð, ísskápur og uppþvottavél með framhlið í stíl við innréttingu.

  • Deluxe 2 – deluxe 1 + combi ofn (sambyggður ofn og örbylgjuofn).

  • Viðbótar skápar í þvottahús.

  • Val um kvarts borðplötu dökk/ljós.

Það er ekki hægt að breyta tækjapakka innbyrðis – öll sýnileg tæki eru með stál útliti. Vönduð Bosch tæki.

Val í íbúðum með opin eldhús
  1. Samkvæmt teikningum er án kostnaðarauka lágur veggur, 120cm hæð.

  2. Val með viðbótar kostnaði, veggur burt, breiðari borðplata, breiðari endi og hægt að sitja við “barborð”.

  3. Val með viðbótar kostnaði , sama og tvö nema viðbótar grunnir skápar í stíl við innréttingaval.

  4. Armur/eyja fjarlægð – enginn afsláttur eða inneign.

Annað

Hægt er að fá íbúð afhenta án gólfefna en flísar eru ávallt lagðar – enginn afsláttur eða inneign. Aðeins hægt að leggja sjálfur EFTIR afhendingu.

Hægt er að sleppa flísum á milli skápa í eldhúsi og þá afhent málað – enginn afsláttur eða inneign.

Fataskápar í fataherbergi eru úr eikar laminat án hurða í öllum útfærslum.

DÆMI UM OPIÐ ELDHÚS MEÐ LÁGUM VEGG.
DÆMI UM OPIÐ ELDHÚS MEÐ BARBORÐI.
DÆMI UM OPIÐ ELDHÚS ÁN ELDHÚSEYJU.

Staða verks í lok maí 2020

Uppsteypu við byggingar í Austurhlíð 10-14 er við það að ljúka. Fjöldi starfsmanna á verkstað er að jafnaði um 30-35 sem vinna við jarðvinnu, lagnakerfi, mótauppslátt, steypu, járnbendingu, raflagnir, múrverk og málun ásamt fleiru.

Hús A 10

Uppsteypu hússins er lokið. Innanhúsfrágangur er kominn á fullt. Raflagnaídráttur er langt kominn og búið er að loka húsinu með gluggaísetningu. Húsið er að mestu full einangrað og utanhúss klæðningar vinna er komin af stað. Byrjað er að reisa gifsveggi innanhúss og allir meginstofnar pípulagna langt komnir.

Hús A 12

Uppsteypa húss er langt komin, aðeins á eftir að steypa portveggi á þaki efri byggingar. Raflagnaídráttur er langt kominn innanhúss og búið er að flota helming byggingarinnar. Komið er að því að múra gluggakanta og reisa gifsveggi. Gluggaísetningu lægri byggningar er lokið og þak komið á.

Hús A 14

Uppsteypu er nærri lokið, aðeins á eftir að steypa lága portveggi á þaki hærri byggingar. Unnið er við raflagnaídrátt og gluggaísetningar eru komnar vel á veg. Innanhúss er slípun á veggjum og loftum langt komin.

Bílakjallari

Veggjasteypum milli allra húsa er lokið og sökkulfót stoðveggjar við innkeyrsluramp. Ennfremur er lokið við alla einangrun sökkla og kjallaraveggja. Byrjað er að steypa undirstöður undir súlur.

Staða verks í byrjun apríl 2020

Byggingarnar í Austurhlíð 10 eru farnar að taka á sig endanlega mynd nú þegar þetta er skrifað í byrjun apríl 2020. Fjöldi starfsmanna á verkstað er að jafnaði í allt um 30-35 starfsmenn sem vinna við jarðvinnu, lagnakerfi, mótauppslátt, steypu, járnbendingu, raflagnir og fleira. Svæðið hefur verið endurskipulagt og áhættugreint vegna hinna fordæmalausu aðstæðna sem skapast hafa vegna Covid-19 heimsfaraldursins.

Hús A 10

Uppsteypu hússins er lokið, nema á litlum hluta efstu portveggja. Unnið er við raflagnaídrátt. Lokið er við u.þ.b. 65% af gluggaísetningu og einangrun hússins komin vel á veg. Búið er að loka þaki á lágbyggingu. Lokið hefur verið við pappalögn á hallandi veggjum efstu hæðar. Innanhúss er unnið við slípun á veggjum og pípulagnavinna að hefjast.

Hús A 12

Uppsteypa húss er langt komin og er unnið við 5. hæð þessa dagana. Unnið við raflagnaídrátt og gluggaísetningar. Innanhúss er unnið við slípun á veggjum og pípulagnavinna að hefjast.

Hús A 14

Uppsteypa er komin vel á veg og steypuvinnu fjórðu hæðar er nú lokið. Unnið er við raflagnaídrátt og gluggaísetningar að hefjast. Innanhúss er unnið við slípun á veggjum.

Bílakjallari

Lokið við veggjasteypur milli allra húsa. Lokið við sökkulfót stoðveggjar við innkeyrsluramp. Lokið er við u.þ.b. 75% af lagningu og fyllingu að frárennslislögnum utan með húsum. Ennfremur er lokið við alla einangrun sökkla og kjallaraveggja.
Íbúðirnar eru 2ja-3ja herbergja með þvottaherbergi innan íbúðar. Séreignageymslur eru í kjallara. Íbúar hafa aðgang að sameiginlegum sal.

Hafðu samband

Fylltu út formið hér við hliðina ef þú ert með ábendingu varðandi framkvæmdir við Austurhlíð 10. Reynt er að fara jafnóðum yfir allar ábendingar sem berast og vinna úr þeim.